Skýr áhrif kláms í nauðgunarmálum

Grein birtist á mbl.is þann 19.4.2013 þar sem skýr áhrif kláms í nauðgunarmálum er lýst. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, en af öðrum ástæðum en fólk mætti búast við í fyrstu.

Grundvallarspurningin er til að byrja með, hvað er klám? Í samantekt á rannsókninni sem liggur fréttinni hér fyrir ofan til grundvallar er skilgreiningu á hugtakinu hvergi að finna og því er erfitt að leggja mat á fréttina eða niðurstöður rannsóknarinnar þar til hún verður birt að fullu. Við getum þó reynt. 

Í skýrslu Sólveigar Pétursdóttur um löggjöf og eftirlit með klámi segir um hugtakið klám að það sé síður en svo vel skilgreint, því inntak þess hefur breyst hægt og bítandi frá því að hegningarlögin voru sett árið 1940 og er það meðal annars ástæðan fyrir því að lögregluyfirvöld hafa oft ekki séð ástæðu til að grípa til aðgerða gegn því. 

Hildur Fjóla Antonsdóttir (sú sama og vann að fyrrnefndri rannsókn) og Gunnhildur Kristjánsdóttir gáfu út skýrsluna Viðhorf til kláms árið 2001, þar sem þær birtu niðurstöður rannsóknar sinnar á, jú, viðhorfi til kláms. Þær lögðu spurningalista fyrir 345 þátttakendur um meðal annars skilgreiningar á klámi. Niðurstöður voru unnar úr 296 svörum einstaklinga á aldrinum 18-72 ára, þar af 161 kona og 135 karlar.

Almenn ánægja var á meðal þátttakenda með þær skilgreiningar sem oftast eru notaðar á opinberum vettvangi yfir klám, en þær eru skilgreining Sameinuðu þjóðanna, skilgreining úr skýrslu nauðgunarnefndar og skilgreining úr greinargerð sem fylgdi lögum um klám. Fleiri konur en karlar voru þó ánægðar með þær skilgreiningar. Þær notuðu einnig skilgreiningu sem byggði á viðmiðum Kvikmyndaskoðunar. Þátttakendur gáfu þeirri skilgreiningu almennt nokkuð háa einkunn og ekki var marktækur munur á niðurstöðum þar eftir kynjum eða aldri.

Skilgreining frá Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1986, þar sem gerður var sérstakur greinarmunur á hugtökunum “klámi” og “kynþokkalist”, er eftirfarandi: 

Klám er ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist er bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.

 Skilgreining Jónatans Þórmundssonar lagaprófessors úr skýrslu nauðgunarmálanefndar frá árinu 1992, er eftirfarandi:  

Klámi má lýsa svo, að í því felist lostug lýsing á kynfærum, kynferðislegum stellingum, athöfnum eða hugsunum, en lostug telst lýsingin því aðeins, að sérstök áhersla sé lögð á hið lostavekjandi (nákvæm lýsing, veigamikill hluti verks) eða hún feli í sér eitthvað afbrigðilegt eða ýkt og þar af leiðandi hneykslanlegt samkvæmt almennu siðamati í kynferðismálum. 

Þessi skilgreining kom fram í greinargerð með frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 126/1996 og fjallaði um barnaklám. Þar segir: 

Með hugtökunum „kynferðislegur“ og „klámfenginn“ er í ákvæðinu átt við kynferðislega lýsingu (ásýnd) sem virkar stuðandi eða er á annan hátt til þess fallin að vera lítillækkandi eða niðrandi, þar með taldar kynferðislegar lýsingar með notkun barna, dýra, ofbeldis, þvingunar og kvalalosta.

Síðasta skilgreiningin byggði á viðmiðum Kvikmyndaskoðunar (sem var lögð niður þann 1. júlí 2006) og hljóðar svo: 

Klám þekkist á því að veigamikill hluti þess samanstendur af atriðum sem limur/ir í fullri reisn og opin sköp snertast. Í þess konar efni virðist söguþráður og persónusköpun vera aukaatriði.  

Af þessum tveimur niðurstöðum sést að viðhorf fólks til hugtaksins klám hefur breyst – þó virðist breytingin ekki vera jafn ör hjá konum. Ætla má að ástæðan fyrir þessari breytingu sé sú að það sem talið hefur verið klám, hvort sem það er “stuðandi kynferðisleg ásýnd”, “lostug eða hneykslanleg lýsing á líkömum”, eða “kynlíf án ábyrgðar” er núna orðinn hluti af daglegu lífi

Óhugnanlega margir nauðgarar vita ekki að þeir eru nauðgarar (Thomas, 2009). Þetta hefur komið fram í mörgum nýlegum rannsóknum um efnið. Í einni slíkri voru karlmenn spurðir eftirfarandi spurninga:

1) Hefur þú beitt einhverjum valdi eða ógnað einhverjum til þess að fá hann til að stunda kynmök með þér?

2) Hefur þú stundað kynmök með einhverjum sem vildi það ekki en var of ölvaður til þess að tjá það?

3) Hefur þú stundað kynmök eftir að hafa beitt valdi eða ógnun?

4) Hefur þú stundað munnmörk eftir að hafa beitt valdi eða ógnun?

Af 1882 mennta- og háskólanemendum sem tóku þátt svöruðu 120 játandi. Ef þú spyrð karlmenn hvort þeir hafi einhverntíman nauðgað, án þess að nota sjálft orðið “nauðgun”, færðu óhugnalega marga til þess að svara játandi. 

Ekki nóg með það heldur sögðust 76 þeirra (63%) hafa framið nauðgun oftar en einu sinni. 76 karlmenn frömdu 439 nauðganir eða tilraunir til nauðgana. Það eru 5.8 nauðganir að meðaltali, en algengasta talan (medianvar 3, svo einhverjir þeirra voru virkilega langt yfir meðaltali. 

Hvað segir þetta um nauðgara? a) Flestar nauðganir eru framdar af sama fólkinu; b) þeir eru hæfir til þess að gera sér grein fyrir því hvenær þeir eru að beita valdi; en mikilvægast c) þeir sjá sig ekki sjálfir sem nauðgarar

Margir hafa tekið (augljósu) niðurstöðum rannsóknar þeirra Hildar og Gunnhildar fagnandi og vilja sumir ganga svo langt að segja að klám hafi þannig getað verið orsök glæpanna. 

Vil ég í ljósi allra ofangreindra atriða endurskrifa greinina Skýr áhrif kláms í nauðgunarmálum sem birtist á mbl.is og þar með skálda nýja grein sem við getum ímyndað okkur að, í ljósi klámvæðingarinnar, er ekki of fjarri raunveruleikanum. 

Skýr áhrif kláms í kynlífi

Greina má skýr áhrif kláms í að minnsta kosti 19% kynlífstilfella. Í sumum tilfellum var klámefni beinlínis hluti af kynlífinu þannig að þátttakendur horfðu á klám á meðan þeir stunduðu kynlíf. 

 

Í sumum tilfellum má sjá bein áhrif kláms með þeim hætti að þátttakendur nota orðfæri eða hátterni sem eru einkennandi fyrir klámiðnaðinn. Einnig einkenndust nokkur tilfelli af endaþarmsmökum og hópkynlífi og í sumum þeirra mála má ætla að gæti áhrifa kláms. 

 

Hægt er að setja allan þennan pistil upp í eina stutta einfalda rökfærslu:

1) Klám hefur áhrif á kynlíf fólks, 

2) Nauðgarar halda að nauðganir þeirra séu kynlíf

————————————————————————-

3) Klám hefur áhrif á nauðganir. 

 

————— 

Gunnhildur Kristjánsdóttir og Hildur Fjóla Antonsdóttir. (2001). Viðhorf til kláms

Soffía Guðrún Guðmundsdóttir. (2011). Kynjamyndir og klámvæðing á stefnumótasíðum.

Sólveig Pétursdóttir. (2001). Skýrsla um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl.

Thomas MacAulay Millar. (2009). Meet The Predators. Sótt 20.4.2013. 

Advertisements
This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s